Kafarar varðskipsins Þórs luku í gær við að þétta öll öndunarop á togaranum Drangi sem liggur nú á botni hafnarinnar í Stöðvarfirði en skipið sökk þar skyndilega í gærmorgun.
Að sögn upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar var greinilegur leki í tveimur opum aftast á skipinu. Þá tryggðu liðsmenn Gæslunnar skipið að aftan svo það myndi ekki reka frá bryggjunni.
Næstu skref eru væntanlega vinna við að ná skipinu upp af botni hafnarinnar en það er í höndum tryggingafélags skipsins. Aðkomu Landhelgisgæslunnar að málinu er því lokið og gert er ráð fyrir að Þór haldi í önnur verkefni í dag.