Erlent

Tilnefning Barrett líklega samþykkt í kvöld

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Amy Coney Barrett segjast túlka ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna og lög eins og þau hafi verið skrifuð.
Amy Coney Barrett segjast túlka ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna og lög eins og þau hafi verið skrifuð. AP/Susan Walsh

Allt bendir til þess að öldungadeild bandaríska þingsins samþykki í kvöld skipun Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara. Donald Trump forseti tilnefndi Barrett eftir að Ruth Bader Ginsburg dómari lést í síðasta mánuði. 

Atkvæðagreiðslan fer fram einhvern tímann á milli klukkan átta og tólf í kvöld. Demókratar hafa lagst gegn tilnefningunni og gagnrýnt skoðanir dómarans á loftslagsbreytingum, réttinum til þungunarrofs og réttindum hinsegin fólks. 

Repúblikanar eru þó með meirihluta í öldungadeildinni. Ekki er búist við öðru en að þeir greiði atkvæði með tilnefningu Barrett og því afar ólíklegt að tilnefningunni verði hafnað.

Verði tilnefningin samþykkt þýðir það að sex dómarar af níu við hæstarétt verða íhaldssamir. Hæstiréttur Bandaríkjanna er afar áhrifamikill og hefur áður skorið úr um deilumál á borð við samkynja hjónabönd árið 2015 og réttinn til þungunarrofs árið 1973. 

Skipað er ævilangt í réttinn og yrði Barrett þriðji hæstaréttardómarinn sem Trump-stjórnin fær samþykktan.


Tengdar fréttir

Hæstaréttardómaraefni Trump samþykkt í þingnefnd

Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti tilnefningu Donalds Trump forseta á Amy Coney Barrett sem hæstaréttardómara þrátt fyrir mótbárur demókrata í dag. Repúblikanar breyttu þingsköpum til að geta haldið áfram með staðfestinguna.

Vildi ekki svara spurningu um þungunarrof

Amy Coney Barrett, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt til Hæstaréttar landsins, neitaði í dag að svara spurningu um hvað henni þætti um dómafordæmi sem veitir bandarískum konum rétt til þungunarrofs og hvort fella ætti það fordæmi úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×