Sýslumaðurinn á Vesturlandi hefur farið fram á að útgáfufélag Viljans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Gjaldþrotaskiptakrafan verður tekin fyrir í Héraðsdómi Vesturlands þann 12. nóvember. Fréttablaðið greinir frá.
Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður rekur Viljann, en hann hefur meðal annars verið tíður gestur á upplýsingafundum Almannavarna og Landlæknisembættisins um kórónuveirufaraldurinn. Hefur hann meðal annars gefið út bókina „Vörn gegn veiru“ um fyrstu bylgju faraldursins hérlendis.
Fyrr á þessu ári var Björn Ingi dæmdur til að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. áttatíu milljónir króna. Héraðsdómur Vesturlands féllst á kröfur Pressunnar um að veðsetningu á eignum félagsins, sem komið var á með lánssamningi milli Pressunnar og Björns Inga, auk tryggingabréfs, yrði rift.
Uppfært klukkan 22:50: Björn Ingi hefur tjáð sig um málið á Facebook og segir enga beiðni um gjaldþrotaskipti hafa borist.