Erlent

Leið­togi kyn­lífs­þrælkunar­hópsins dæmdur í 120 ára fangelsi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Keith Raniere og verjendur hans líkt og teiknari AP sá þá fyrir sér í dómsal.
Keith Raniere og verjendur hans líkt og teiknari AP sá þá fyrir sér í dómsal. AP/Elizabeth Williams

Keith Raniere, maðurinn sem sakaður var um að hafa verið leiðtogi sjálfshjálparhóps sem hneppti konur í kynlífsþrælkun hefur verið dæmdur í 120 ára fangelsi.

Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að sakfella ætti Raniere af öllum ákæruliðum í málinu en hann var ákærður fyrir fjárglæfrar, kynlífsþrælkun og ýmsa aðra glæpi.

Raniere var leiðtogi hóps sem kallaðist NXIVM en svo virðist sem að konur hafi verið sérstaklega fengnar í sérstakan undirhóp NXIVM til þess að stunda kynlíf með Raniere.

Þrátt fyrir að meira en ár sé liðið frá sakfellingunni hafði dómarinn í málinu ekki ákveðið hversu lengi Raniere ætti að dúsa í fangelsi. Niðurstaðan barst í dag, 120 ára fangelsi, sem þýðir að Raniere mun sitja í fangelsi til æviloka.

Aðrir meðlimir hópsins sem ákærðir voru í tengslum við starfsemi hans höfðu játað brot sín, þar á meðal Hollywood-leikkonan Allison Mack, sem best er þekkt fyrir leik sinn í þáttunum Smallville. Hún játaði á síðasta ári að hafa aðstoðað Raniere að finna konur og halda þeim í kynlífsþrælkun.

Málið sneri einkum að hóp innan NXIVM sem kallaðist DOS og átti að vera einhvers konar kvenfélag innan NXIVM. Hópurinn átti eingöngu að vera skipaður konum og var tilgangur hans að bæta líf þeirra og vera valdeflandi.

Þvert á móti virðist hópurinn eingöngu hafa þjónað þeim tilgangi að svala kynferðislegum þörfum Raniere.

Raniere neitaði sök í málinu en bar ekki vitni í því. Raunar kölluðu verjendur hans engin vitni til að tala máli hans á meðan á réttarhöldunum stóð. Byggðist vörnin einkum á því að samræði Raniere og kvennanna hafi verið með samþykki beggja aðila.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×