Innlent

„Franska afbrigðið“ virðist meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alma Möller, landlæknir, ítrekaði mikilvægi þess að allir hugi vel að sóttvörnum og forðist hópamyndun á upplýsingafundi í dag.
Alma Möller, landlæknir, ítrekaði mikilvægi þess að allir hugi vel að sóttvörnum og forðist hópamyndun á upplýsingafundi í dag. Vísir/Vilhelm

Svo virðist sem það afbrigði kórónuveirunnar sem kom inn til landsins með tveimur frönskum ferðamönnum í ágúst sé meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar sem greinst hafa hér á landi.

Þetta sagði Alma Möller, landlæknir á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Hún sagði smitstuðulinn benda til þessa auk raðgreiningar erlendis frá.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ræddi þetta einnig í Kastljósi í gærkvöldi. Þar sagði hann að svo virtist sem þetta afbrigði veirunnar væri óvanalega smitandi. Það hefði þó ekki enn verið sannað en þetta tiltekna afbrigði veirunnar hefur valdið yfirstandandi bylgju faraldursins hérlendis.

Landlæknir lagði áherslu á það í máli sínu á upplýsingafundi í dag að allir tækju sig á í smitvörnum. Það þyrfti að þvo hendurnar með sápu í tuttugu sekúndur, spritta hendur eða þvo þær áður en komið væri við sameiginlega snertifleti og líka spritta eftir að hafa snert slíka fleti.

Þá benti Alma sérstaklega á stigaganga fjölbýlishúsa og nauðsyn þess að þrífa þá og sameiginlega snertifleti þar. Fólk ætti að forðast að vera með hendur í andlitinu því veiran ætti þá greiða leið inn í líkamann í gegnum augu, nef og/eða munn.

Einnig væri mikilvægt virða tveggja metra regluna, nota grímu þegar við á og forðast hópamyndun.

„Við þurfum eiginlega að þétta okkar innsta hring meðan veiran gengur svona. Þetta er auðvitað sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem tilheyra áhættuhópum. Síðan verður ekki nægilega oft sagt að við eigum að vera heima ef við erum með einkenni sem geta samræmst Covid. Þá eigum við að sækjast eftir sýnatöku og vera heima þangað til að svar um að við séum ekki með Covid liggur fyrir,“ sagði Alma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×