Innlent

Starfsmenn Rio Tinto undirrituðu kjarasamning

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Álver Rio Tinto í Straumsvík.
Álver Rio Tinto í Straumsvík. Vísir/vilhelm

Samninganefnd starfsfólks álversins í Straumsvík skrifaði í gærkvöldi undir kjarasamninga við samninganefnd Rio Tinto á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðum stéttarfélaga sem eiga aðild að samningnum.

Stéttarfélögin eru fimm; Félag íslenskra rafvirkja, Hlíf, Félag iðn og tæknigreina (FIT), Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) og Félag rafeindavirkja. Fram kemur í tilkynningu á vef VM að efni kjarasamninganna verði nú kynnt starfsfólki sem muni í kjölfarið greiða atkvæði um þá.

„Að baki er löng og ströng samningalota. Sá árangur sem nú hefur náðst er tilkominn vegna þeirrar ríku samstöðu og hvatningar sem samninganefndin hefur notið frá starfsfólki álversins í öllu því ferli,“ segir í tilkynningu.

Kolbeinn Gunnarsson formaður stéttarfélagsins Hlífar segir í samtali við Ríkisútvarpið að hann sé nokkuð sáttur við efni samningsins. Hann sé í samræmi við Lífskjarasamninginn. Þá verði kosið rafrænt um samninginn og þeirri kosningu eigi að vera lokið fyrir 13. Nóvember.

Um 400 félagsmenn stéttarfélaganna eiga aðild að samningnum sem er til eins árs, að því er fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins.

Starfsmenn Rio Tinto í Straumsvík hafa verið samningslausir síðan í byrjun júlí. Skæruverkfall átti að hefjast nú í október en því var frestað eftir að samkomulag náðist við stjórnendur álversins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×