Landsréttur hafnaði kröfu Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi lektors við Háskólann í Reykjavík, á hendur skólanum í dag. HR sagði Kristni upp vegna ummæla sem hann lét falla um konur í lokuðum Facebook-hóp í tengslum við MeToo-umræðuna fyrir tveimur árum.
Kristinn krafðist miskabóta upp á hátt í sextíu milljónir króna frá HR vegna uppsagnarinnar í október árið 2018. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði skólann af kröfunni í ágúst í fyrra.
Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristins, staðfestir við Vísi að Landsréttur hafi hafnað kröfu hans í dag. Hann segir niðurstöðuna umhugsunarverða í ljósi þess að Kristinn hafi verið rekinn fyrir að láta í ljós skoðun sína á máli sem var til mikillar umræðu í samfélaginu á lokaðri vefsíðu.
Kristinn starfaði sem lektor við tækni- og verkfræðideild HR en var sagt upp störfum vegna ummæla hans um konur í lokuðum Facebook-hóp, „Karlmennskuspjallið“, í október árið 2018.
Ummælin voru á þá leið að konur troði sér inn á vinnustaði og eyðileggðu þá því karlmenn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti“. Sagði Kristinn að hann teldi vert að skoða möguleika á aðgreindum vinnustöðum kvenna og karla.
Dómurinn í máli Kristins hefur enn ekki verið birtur á vef Landsréttar. Jón Steinar segir að rétturinn hafi ekki fallist á að í uppsögn Kristins hafi falist ólögmæt meingerð gegn honum og því hafi skólinn verið sýknaður af kröfunni.
Fréttin hefur verið uppfærð.