„Þar sem maður er kominn norður í sæluna hef ég ákveðið að selja mína æðislegu íbúð á Laugaveginum. Frábærir nágrannar og virkilega gott að búa þarna,“ segir tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson í færslu á Facebook en hann hefur sett íbúð sína í hjarta miðborgarinnar á sölu.
Um er að ræða tæplega níutíu fermetra íbúð á 2. hæð með fallegum svölum til austurs. Með eigninni fylgir bílastæði í upphituðum bílakjallara.
Húsið var upphaflega byggt árið 1904 en búið er að taka húsið í gegn frá a-ö. Fasteignamat íbúðarinnar er 53,6 milljónir en ásett verð er 62,9 milljónir.
Hér að neðan má sjá myndir af eigninni en Friðrik býr sem stendur á Akureyri eins og hann segir sjálfur.





