Enski boltinn

United sagt í sambandi við Pochettino

Sindri Sverrisson skrifar
Ole Gunnar Solskjær virðist orðinn valtur í sessi.
Ole Gunnar Solskjær virðist orðinn valtur í sessi. Getty/Matthew Peters

Manchester United hefur áhuga á að ráða Mauricio Pochettino sem knattspyrnustjóra í stað Ole Gunnars Solskjær eftir dapra frammistöðu liðsins að undanförnu.

Þetta fullyrðir staðarmiðillinn Manchester Evening News í dag. Þar segir að forráðamenn United hafi haft samband við fulltrúa Pochettino með það fyrir augum að hann verði næsti knattspyrnustjóri liðsins.

MEN hefur áður sagt frá því, í desember í fyrra, að Pochettino vilji taka við United. Miðillinn segir að sú afstaða hafi ekki breyst.

Pochettino, sem er 48 ára gamall, stýrði síðast Tottenham en var rekinn þaðan í nóvember 2019, eftir fimm ár í starfi. Hálfu ári áður hafði hann komist með liðið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, en tapað þar 2-0 fyrir Liverpool.

Mauricio Pochettino er sagður spenntur fyrir því að taka við Manchester United.Getty/Justin Setterfield

Solskjær hefur verið stjóri United frá því í desember 2018. Undir hans stjórn hafnaði liðið í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð, þó 33 stigum á eftir meisturum Liverpool.

United er aðeins með sjö stig eftir fyrstu sex leiki sína í deildinni í vetur, og liðið tapaði 2-1 gegn Istanbul Basaksehir í Meistaradeildinni í gærkvöld eftir að hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í keppninni. Tapi United gegn Everton á laugardaginn gæti liðið farið inn í landsleikjahléið í 17. sæti úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×