KSÍ tilkynnti í kvöld hvaða leikmenn hefðu verið kosnir bestir og efnilegastir í Pepsi Max deild kvenna. Það var gert í Pepsi Max mörkum kvenna sem var á dagskránni í kvöld.
Leikmenn liðanna kusu um þá bestu, efnilegustu og besta þjálfarann. Fengu verðlaunahafarnir verðlaunin afhent í þætti kvöldsins úr höndum varaformanns KSÍ, Borghildar Sigurðardóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir úr Breiðabliki var valin besti leikmaður mótsins. Hin nítján ára gamla Sveindís skoraði fjórtán mörk í þeim fimmtán leikjum sem hún spilaði í deildinni í sumar.
Hún var ekki bara best heldur varð hún einnig markahæst. Eins og áður segir skoraði Sveindís fjórtán mörk fyrir topplið Blika sem varð Íslandsmeistari eftir að mótið var blásið af.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir, markvörður úr Fylki, var valin efnilegasti leikmaðurinn. Cecilía Rán er sautján ára gömul en hún fékk á sig 29 mörk í leikjunum fimmtán sem Fylkir spilaði í deildinni.
Cecilía var einnig viðloðandi A-landslið Íslands á árinu og lék m.a. sinn fyrsta landsleik fyrr á árinu. Hún var í landsliðshópnum á dögunum er Ísland mætti Svíþjóð en var á tréverkinu í þeim leik.
Það kom ekki á óvart að Þorsteinn Halldórsson, þjálfara Íslandsmeistara Blika, var valinn besti þjálfarinn en Guðmundur Páll Friðbertsson var valinn besti dómarinn.