Lífið

Táraðist í beinni eftir sigur Biden

Sylvía Hall skrifar
Það var tilfinningaþrungin stund fyrir Van Jones þegar ljóst var að Joe Biden hafði tryggt sér þá kjörmenn sem hann þurfti.
Það var tilfinningaþrungin stund fyrir Van Jones þegar ljóst var að Joe Biden hafði tryggt sér þá kjörmenn sem hann þurfti. CNN

Van Jones, álitsgjafi CNN í bandarísku forsetakosningunum, brotnaði niður í beinni útsendingu eftir að sjónvarpsstöðin lýsti Joe Biden sem sigurvegara bandarísku forsetakosninganna. Á þeim tímapunkti virtist liggja fyrir að Biden myndi fara með sigur úr býtum í Pennsylvaníu, sem tryggði honum sigurinn.

„Það er auðveldara að vera foreldri þennan morguninn, það er auðveldara að vera pabbi. Það er auðveldara að segja börnunum þínum að hvernig manneskja þú ert skiptir máli. Það skiptir máli að segja sannleikann. Það skiptir máli að vera góð manneskja,“ sagði Jones eftir tilkynninguna.

Hann sagði kjör Biden stórmál fyrir marga hópa í Bandaríkjunum sem hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár. Minnihlutahópar þyrftu ekki að óttast óvissuna eins mikið undir stjórn Biden.

„Það er auðveldara fyrir marga. Ef þú ert múslimi í þessu landi, þá þarftu ekki lengur að hafa áhyggjur af því að forsetinn vilji ekki hafa þig hér. Ef þú ert innflytjandi, þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af því að forsetinn taki glaður börnin í burtu eða sendi „dreamers“ til baka að ástæðulausu,“ sagði Jones og vísaði þar til DACA-löggjafarinnar sem Donald Trump ætlaði að afnema. 

Fjölmörg börn innflytjenda gátu stundað nám og sótt um atvinnuleyfi í landinu á grundvelli þeirrar löggjafar og voru þau gjarnan kölluð „dreamers“.

Hann sagðist finna til með fólkinu sem tapaði í kosningunum, og þó að dagurinn væri góður fyrir marga væri hann kannski ekki jafn góður fyrir það. Sigurinn væri þó mikið fagnaðarefni fyrir marga.

„Þetta er uppreist æru fyrir marga sem hafa þurft að þjást,“ sagði Jones og minntist til að mynda baráttu svartra í Bandaríkjunum í kjölfar dauða George Floyd. Hann sagði rasismann í Bandaríkjunum hafa farið stigvaxandi undanfarin ár.

„Þetta er stórmál fyrir okkur, bara til þess að fá smá frið. Fá tækifæri til að byrja upp á nýtt.“


Tengdar fréttir

Pennsylvanía færir Biden sigurinn

Demókratinn Joe Biden hefur nú tryggt sér þá 270 kjörmenn sem þarf til að sigra í forsetakosningunum í Bandaríkjunum eftir hann sigldi fram úr Donald Trump í talningu í Pennsylvaníu. CNN lýsti Biden sigurvegara í ríkinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×