Það gæti reynst erfitt fyrir næsta frambjóðanda Repúblikanaflokksins að sækja fylgi vegna mikillar hylli Trumps í flokknum að sögn Guðmundar Hálfdánarsonar, prófessors í sagnfræði.
Marco Rubio hefur verið nefndur sem mögulegt andlit flokksins og arftaka Trumps innan hans.
„Hann kemur til með að eiga erfitt með að fá fylgi án þess að raunverulega tala til Trump aðdáenda. Sem eru að kjósa Repúblikanaflokkinn, ekki bara vegna þess að þau styðja málefni hans, heldur því þeir leggja það á sig að kjósa vegna þess að þeir dá svo Trump. Tekst einhverjum að taka þann kyndil það er ekki gott að segja,“ segir Guðmundur Hálfdánarson.
Kristján Kristjánsson ræddi við Guðmund í Sprengisandi í morgun.
Er „Trumpismi“ til?
Guðmundur segir það álitamál hvort svokallaður „Trumpismi“ sé til. Í Trumpisma er talin felast óbilandi trú á Donald Trump og aðferðafræði hans.
„Að hve miklu leyti snýst þetta bara um hans persónu eða að hve miklu leyti er hann að tjá pólitík sem hefur víðtækan stuðning.“ Hann segir að tíminn muni leiða það í ljós.
Guðmundur segir Trump hafa náð til margra í kosningabaráttu sinni.
„Það verður ekki af honum tekið og það sem einkennir hans kosningabaráttu eða kosningahegðun - er að honum tekst mjög vel að fá sína kjósendur og aðdáendur til að koma á kjörstað. Alveg örugglega þá hafa margir kosið í þessum tvennum kosningum 2016 og 2020 sem ekki hafa kosið áður.“
Hann segir kosningabaráttu í Bandaríkjunum snúast að miklu leyti um að fá fólk á kjörstað.
„Það munar oft mjög litlu og því snýst þetta um að fá fólk til að kjósa og báðum aðilum tókst það mjög vel.“