Íslenska landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í vörn Rosengard sem vann öruggan 0-3 útisigur á Pitea í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Rosengard styrkti þar með stöðu sína í 2.sæti deildarinnar en ljóst er að liðið getur ekki náð toppliði Gautaborg að stigum þar sem einungis er ein umferð eftir af mótinu og Gautaborg með fjögurra stiga forystu.
Tveimur stigum munar á Rosengard og Íslendingaliði Kristianstad sem er í 3.sæti en þrjú efstu liðin í sænsku deildinni fá keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.