Íslenski boltinn

„Stór stjarna fyrir aftan þetta Íslandsmót“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Kristinsson hefur unnið sex stóra titla sem þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson hefur unnið sex stóra titla sem þjálfari KR. vísir/bára

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, segist hafa viljað klára Íslandsmótið í fótbolta og segir að fjárhagslegt tjón KR-inga af því að komast ekki í Evrópukeppni sé mikið. KR átti möguleika á að ná Evrópusæti bæði í gegnum Pepsi Max-deild karla og Mjólkurbikarinn en þeir hurfu út um gluggann þegar KSÍ flautaði Íslandsmótið af þarsíðasta föstudag.

„Mér finnst það ekki rétt en auðvitað er ég KR-ingur og við erum ekki í Evrópukeppni miðað við þessar aðstæður. Þetta er gríðarlega mikið fjárhagslegt tjón fyrir öll þau félög sem komast ekki í Evrópukeppni. Ég segi ekki að menn reikni með því en þetta snýst um mikla peninga. Og með einu pennastriki er mótinu lokið,“ sagði Rúnar í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í lokaþætti Pepsi Max stúkunnar á laugardaginn.

Knattspyrnudeild ákvað að kæra ákvörðun KSÍ að hætta keppni á Íslandsmótinu til áfrýjunardómstóls sambandsins. Rúnar segist lítið vita hvar það mál er statt.

Hann bendir á að það liggi ekki á fyrir KSÍ að tilkynna hvaða íslensku lið taka þátt í Evrópukeppnum á næsta tímabili og hægt hefði verið að leika í vetur.

„Það er nægur tími. Við getum alveg spilað þetta og klárað mótið. Stigataflan er eins og hún er í dag og það verður stór stjarna fyrir aftan þetta Íslandsmót,“ sagði Rúnar.

„Valur eru verðugir meistarar og hefðu sjálfsagt alltaf klárað þetta mót. En þeir áttu möguleika á að setja stigamet og vinna tvöfalt. Steven Lennon hefði getað sett markamet. Það er fullt sem hefði getað breyst.“

Á enn eftir að verja titilinn

KR-ingar mættu til leiks í sumar sem Íslandsmeistarar eftir að hafa unnið Pepsi Max-deildina með miklum yfirburðum í fyrra. Þeir voru hins vegar langt frá því að verja titilinn, eins og þeir voru 2012 og 2014 þegar þeir áttu titil að verja undir stjórn Rúnars.

„Ég var að reyna í þriðja sinn að verja titil en það hefur aldrei tekist. Ég hugsaði mikið um þetta fyrir mót, hef reynt að breyta æfingaaðferðum, leikmannahópnum, hvernig við vinnum til að láta þetta verða að veruleika, að vinna aftur. En það mistókst,“ sagði Rúnar. Hann segir að meiðsli hafi sett strik í reikning KR-inga í sumar.

„Ég segi það alltaf að til að vinna Íslandsmótið þarftu að hafa smá heppni með þér. Það þarf allt að ganga upp. Þú þarft að forðast meiðsli og fullt af litlum hlutum að vera í lagi. Eins og þegar við unnum í fyrra fórum við á flug þar sem við töldum okkur vera ósigrandi, líður ofboðslega vel þegar förum inn í leiki, lítið um meiðsli og smá heppni sem fylgir okkur,“ sagði Rúnar. 

„Við lokuðum leikjum örugglega og maður horfir svolítið á það sama hjá Val núna. Eftir að Valur komst á skrið voru þeir komnir á sama stað og við í fyrra. Þeir unnu fullt af leikjum, suma sannfærandi, aðra á seiglu og góðum varnarleik.“

Klippa: Pepsi Max stúkan - Viðtal við Rúnar Kristinsson

Tengdar fréttir

Lennon bestur og Val­geir efni­legastur

Síðasti þáttur tímabilsins af Pepsi Max Stúkunni fór fram í kvöld. Guðmundur Benediktsson og spekingar hans gerðu þar upp tímabilið í Pepsi Max deild karla sem blásin var af í síðustu viku.

KR staðfestir komu Grétars Snæs

Knattspyrnumaðurinn Grétar Snær Gunnarsson er genginn til liðs við KR en hann lék með Fjölni í Pepsi-Max deildinni á nýafstaðinni leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×