Erlent

Perúþing bolar for­seta landsins úr em­bætti

Atli Ísleifsson skrifar
Martin Vizcarra tók við embætti forseta í mars 2018.
Martin Vizcarra tók við embætti forseta í mars 2018. Getty

Meirihluti þingmanna í Perú hefur samþykkt að ákæra forseta landsins, Martin Vizcarra, vegna ásakana um mútuþægni. Vizcarra sagðist sætta sig við niðurstöðu þingsins og ekki ætla sér að berjast gegn ferlinu og hefur nú þegar látið af forsetaembætti.

BBC segir frá því að Manuel Merino, forseti þingsins, muni nú taka við starfsskyldum forseta til júlímánaðar 2021, en þá hefur kjörtímabil Vizcarra runnið sitt skeið.

Þetta var önnur tilraun þingsins á innan við tveimur mánuðum til að bola forsetanum úr embætti. Hinn 57 ára Vizcarra hafði áður hafnað ásökunum um að hann hafi þegið jafnvirði um 90 milljónir króna í mútufé á þeim tíma er hann var ríkisstjóri í Moquegua í suðurhluta landsins.

Fyrir atkvæðagreiðslu þingsins sagði Vizcarra að ákæruferli á hendur honum gæti skapað ringulreið í landinu, sem nú þegar glímir við miklar efnahagsþrengingar vegna heimsfaraldursins.

105 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni, nítján gegn og fjórir sátu hjá.

Vizcarra tók við embætti forseta í mars 2018 eftir að forverinn, Pedro Pablo Kuczynski, sagði af sér í kjölfar ásakana um kosningasvindl.

Forsetakosningar fara fram í Perú í apríl á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×