Skoðun

Peningarnir liggja á götunni, tínum þá upp

Þórhildur Sunna Ævars­dóttir skrifar

Baráttan gegn spillingu verður að vera ofarlega í forgangsröðun okkar. Fjöldi hneykslismála, til að mynda hinn svokallaði FinCen-leki í september, hafa sýnt að baráttu okkar á innlendum og alþjóðlegum vettvangi er enn ábótavant.

Alþjóðabankinn áætlar að hagnaðurinn af skipulagðri glæpastarfsemi og mútugreiðslum hlaupi á meira en tvö þúsund milljörðum Bandaríkjadala árlega. Löggæslustofnunum tekst hins vegar aðeins að gera brotabrot af fjármagninu upptækt á hverju ári (áætlað 1% fjármagnsins er gert upptækt árlega). Þær gríðarháu upphæðir sem eftir standa safnast á hendur skipulagðra glæpasamtaka, spilltra embættismanna og hryðjuverkasamtaka og skapa ógn við lýðræðið, réttarríkið og þjóðaröryggi ríkja heims.

Í þessari vondu stöðu eru þó fólgin stór tækifæri. Takist ríkjum að gera stærri hluta peningana upptækan mætti nýta fjárhæðina til að ráðast gegn afleiðingum skipulagðrar glæpastarfsemi, spillingar og hryðjuverka, öllum samfélögum til hagsbóta. Stuðningur við rakningu og upptöku þessara fjármuna er því ekki aðeins brýnn heldur að líkindum gríðarlega ábatasamur.

Samþykkt samhljóða

Af þessum sökum var mér falið það verkefni, fyrir hönd laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, að skrifa skýrslu þar sem lagðar eru til úrbætur í þessum málum. Ég mælti fyrir skýrslunni í gær og var hún samhljóða samþykkt af hálfu nefndarinnar.

Skýrslan byggir á ráðleggingum fjölda sérfræðinga sem komu á fund nefndarinnar í október og fundum mínum með fulltrúum Greco og Moneyval. Niðurstöður þeirrar vinnu er að varnir Evrópuráðsríkja gegn peningaþvætti eru víða veikar og peningaþvættisskrifstofur (e. Financial Intelligence Units) skortir valdheimildir til að taka betur á málunum.

Til þess að bæta úr þessu lagði ég m.a. til í skýrslunni:

  • Að styrkja peningaþvættisskrifstofur aðildarríkjanna í samræmi við tillögur FATF og Moneyval og veita þeim næga fjármuni og mannafla til að rekja og uppræta peningaþvætti.
  • Standa vörð um sjálfstæði peningaþvættisskrifstofa og auðvelda samstarf þeirra þvert á landamæri.
  • Veita peningaþvættisskrifstofum heimild til að frysta grunsamlegar millifærslur tímabundið, einnig að beiðni erlendra samstarfsaðila, í samræmi við 14. og 47. grein Varsjársáttmálans.
  • Hvetja til samtals og samstarfs milli einkageirans og hins opinbera til að tryggja gæði skýrslna um grunsamlegt athæfi (e. Suspicious Transaction Reports)
  • Snúa sönnunarbyrðinni þegar kemur að lögmæti fjármagns þannig að sá sem fer með það þurfi að færa sönnur á löglegan uppruna þess.

Pólitískur vilji stærsta hindrunin

Sem fyrr segir voru tillögurnar samhljóða samþykktar í nefndinni í gærmorgun. Það þýðir að þær verða lagðar fyrir Evrópuráðsþingið og, í ljósi samstöðu nefndarinnar, eru yfirgnæfandi líkur á því að þingið samþykki tilmæli hennar að úrbótum fyrir öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins - Ísland þar með talið.

Daniel Thelesklaf, fyrrverandi formaður Moneyval og svissnesku fjárþvættisskrifstofunnar (MROS), hefur bent á fjölda brotalama í þessum málum. Það skorti t.a.m. fjármagn og mannafla til að takast á við mál sem verða sífellt flóknari og viðameiri. Stærsta hindrunin að hans mati er hins vegar skortur á vilja stjórnmálamanna til að taka á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka af festu.

Til mikils að vinna

Ísland er engin undantekning í þessum efnum eins og nýleg svaðilför okkar á gráum lista FATF ber greinileg merki. Áralöng vanræksla stjórnvalda gagnvart viðunandi vörnum gegn peningaþvætti, þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir FATF um nauðsynlegar úrbætur, er lýsandi fyrir algeran skort á pólitískum vilja til þess að varna peningaþvætti í íslenskri lögsögu. Þá hef ég ekki, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, fengið það staðfest að til standi að bæta upp fyrir áralangt eftirlitsleysi með mögulegum skattsvikum og peningaþvætti með afturvirkum rannsóknum.

Það er ekki til einskis að vinna. Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um eignir Íslendinga á aflandssvæðum er uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljarðar króna. Tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 nemur líklega um 56 milljörðum króna og á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna. Hér er ótalinn hagnaður af ólöglegri starfsemi og ólögmætt fjármagn frá útlöndum sem hefur auðveldlega getað flætt í gegnum íslenska lögsögu á eftirlitslausu árunum.

Vonandi er fjárhagslegi hvatinn sem felst í því að gera stærri hluta þessara gríðarlegu fjármuna upptækan til þess fallinn að auka pólitískan stuðning við baráttuna, jafnt hér á landi og annars staðar. En við hljótum að spyrja hvers vegna erum við að bíða og eftir hverju? Ég segi bara eins og fyrrverandi samstarfsmaður minn, hollenski þingmaðurinn Mart van de Ven: Peningarnir liggja á götunni, tínum þá upp!

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×