Skoðun

Stærsta hagsmunamál þjóðarinnar

Helga Baldvins Bjargardóttir og Katrín Oddsdóttir skrifa

Samkvæmt fréttum í gær hefur Alþingi mistekist að leiða fram breytingar á stjórnarskrá í sátt allra flokka á þingi. Alþingi getur ekki klárað þetta mál, einfaldlega vegna þess að stjórnarskrárvaldið á ekki heima á borði þingsins. Með öðrum orðum, Alþingi á hvorki né getur samið sínar eigin leikreglur um meðferð valdsins sem það fer með.

Nú eru liðnar þrjár vikur síðan við afhentum Alþingi lista með 43.423 staðfestum undirskriftum. Við krefjumst þess að vilji meirihluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu sé virtur.

Hið augljósa svar við stöðunni sem upp er komin er að veita valdinu þangað sem það á heima, til þjóðarinnar.

Því leggjum við til að þingmenn, óháð flokkum, beiti sér fyrir því af hugrekki og heilindum að vinna að þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar í sameiningu. Þetta er hægt að gera með þeirri einu breytingu á stjórnarskrá, að valdið yfir því hvernig stjórnarskránni er breytt verði fært til þjóðarinnar.

Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn.

Helga Baldvins Bjargardóttir, formaður Samtaka kvenna um nýja stjórnarskrá

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins.




Skoðun

Sjá meira


×