Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að ríkisstjórn Rússlands gruni að taugaeitrið Novichok, hafi borist í rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní þegar verið var að flytja hann til Þýskalands. Það var nokkrum dögum eftir að Navalní veiktist snögglega í flugvél yfir Síberíu og lenti í dái á sjúkrahúsi í borginni Ota.
Kíra Jarmísj, talskona Navalnís, segir yfirlýsingu Lavrov vera þá „heimskulegustu“ hingað til, samkvæmt frétt DW.
Navalní veiktist hastarlega í flugvél í Rússlandi 20. ágúst. Hann féll í dá og grunaði aðstandendur hans strax að eitrað hefði verið fyrir honum. Nokkrum dögum síðar var Navalní fluttur á sjúkrahús í Berlín. Sérfræðingar í Þýskalandi segja að honum hafi verið byrlað novichok, taugaeitur sem var þróað í Sovétríkjunum.
Vísindamenn í Svíþjóð og Frakklandi komust að sömu niðurstöðu sem vísindamenn Efnavopnastofnunarinnar hafa einnig staðfest.
Navalní hefur sakað Pútín um að standa að baki því að eitrað var fyrir honum. Því neita ráðamenn í Moskvu alfarið.
Evrópusambandið beitti í kjölfarið sex meðlimi ríkisstjórnar Rússlands viðskiptaþvingunum. Mennirnir voru taldir hafa komið að eitrun Navalní.
Lavrov segir að Rússar ætli að beita ráðamenn í Þýskalandi og Frakklandi eigin viðskiptaþvingunum. Þær muni beinast að æðstu starfsmönnum embættis kanslara Þýskalands og forseta Frakklands.
„Þar sem Þýskalands keyrði áfram þvinganir ESB gagnvart okkur í tengslum við mál Navalní og þar sem þær beinast gegn háttsettum starfsmönnum forsetaembættis Rússlands, eru okkar viðbrögð að bregðast við þeim,“ sagði Lavrov í dag.