Jerry John Rawlings, fyrrverandi forseti Gana, er látinn, 73 ára að aldri.
BBC segir frá því að sem háttsettur stjórnandi í flugher landsins hafi hann leitt valdarán hersins í tvígang. Fyrra skiptið var árið 1979 og kom hann völdunum þá í hendur borgaralegrar ríkisstjórnar, en tveimur árum síðar fór hann aftur fyrir valdaráni hersins.
Hann leiddi svo herstjórn landsins allt til ársins 1992 þegar haldnar voru þingkosningar í landinu. Hann var þá kjörinn fyrsti forseti landsins og lét af embætti forseta árið 2001 eftir að hafa setið tvö kjörtímabil.
BBC segir frá því að hann hafi verið mikill baráttumaður gegn spillingu þegar hann komst til valda árið 1979. Hann hafi borið ábyrgð á að nokkrir fyrrverandi leiðtogar landsins og hershöfðingjar hafi verið teknir af lífi í kjölfar ásakana um spillingu og óreiðu við rekstur ríkisins.
Fjölmiðlar í Gana segja að forsetinn fyrrverandi hafi andast á sjúkrahúsi í höfuðborginni Accra fyrr í dag.