Yfirvöld í nokkrum Evrópuríkjum hafa varað fólk við að skipuleggja ferðalög um jólin, enda sé kórónuveirufaraldurinn enn í sókn víða í álfunni.
Í Svíþjóð greindi Anders Tegnell sóttvarnalæknir frá því að landsmenn mættu búa sig undir hugsanlegar ferðatakmarkanir í kringum jólahátíðina til að koma í veg fyrir að heilbrigðiskerfið færi á hliðina og að tillögur þess efnis gætu litið dagsins ljós á næstunni.
Tegnell sagði að flest ný smit í landinu mætti rekja til gleðskapar og veisluhalda og vonaði hann að reglur um lokun öldurhúsa eftir klukkan tíu, sem taka gildi í næstu viku, verði ekki til þess að fólk hópist saman í einkasamkvæmum.
Fjörutíu manns létust af völdum Covid-19 í Svíþjóð í gær og er það hæsta dánartala í faraldrinum í fimm mánuði.
Tónninn í stjórnvöldum á Írlandi og Frakklandi er á svipuðum nótum, eftir því sem fram kemur í frétt á breska ríkismiðlinum BBC, og sögðu ráðherrar í viðtölum við fjölmiðla að ekki væri tímabært að huga að ferðalögum á þessum eina annasamasta tíma hvers árs.
Víða í Evrópu eru í gildi strangar sóttvarnaaðgerðir, samkomutakmarkanir og jafnvel útgöngubann, nú aðeins sex vikum fyrir jól.