Stjórnvöld í Eþíópíu segja að ráðandi öfl í Tigray-ríki í norðurhluta landsins hafi skotið eldflaugum yfir í nærliggjandi héruð sem hafi meðal annars valdið skemmdum á mikilvægum innviðum.
Aukin harka hefur færst í átök sem staðið hafa yfir milli ríkisstjórnar Eþíópíu og Frelsishreyfingar Tigray, TPLF-flokksins (e. Tigray Peoples Liberation Front), sem ræður ríkjum í Tigray, undanfarna daga. Svo mjög að komið hefur til hernaðarátaka. Átökin hafa leitt til þess að þúsundir íbúa hafa flúið yfir landamærin til Súdan. Nokkur hundruð hafa látið lífið í átökunum.
Ein eldflaugin sem skotið var í gær olli skemmdun á flugvallarsvæði að sögn ríkisstjórnarinnar. TPLF hefur ekki staðfest að bera ábyrgð á árásinni en segir að „hvaða flugvöllur sem er notaður til að ráðast gegn Tigray,“ sé að því er AFP greinir frá, „lögmætt skotmark.“
Eldflaugum var skotið í átt að borgunum Bahir Dar og Gondar í Amhara-ríki seint í gærkvöldi að því er verkefnahópur neyðarstjórnar Eþíópíska ríkisins greinir frá á Twitter.
„TPLF er að nota það síðasta sem eftir er af vopnum í vopnabúrum þeirra,“ segir í tístinu þar sem jafnframt er tekið fram að rannsókn sé hafin vegna árásanna.
Fréttastofa Rauters hefur eftir embættismanni að ein eldflauganna hafi lent á flugvellinum í Gondar og valdið þar nokkrum skemmdum. Önnur flaug hafi lent rétt fyrir utan flugvöllinn í Bahir Dar. Flugvellirnir tveir eru báðir notaðir af hernum og einnig fyrir flugvélar fyrir almenna farþega.
Eldflaugaárásirnar hafa vakið ótta um að átökin í Tigray-ríki kunni að breiðast út víðar um landið. Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, fyrirskipaði hernaðaraðgerðir gegn TPLF fyrr í þessum mánuði eftir að saka flokkinn um árás á herbúðir landsstjórnarinnar. TPLF hefur hafnað þessum ásökunum. Síðan þá hefur nokkrum sinnum komið til vopnaðra árása á svæðinu.