Íslenski boltinn

Málum KR og Fram gegn stjórn KSÍ vísað frá

Sindri Sverrisson skrifar
KR-ingar voru komnir í undanúrslit bikarkeppninnar og einu sæti frá Evrópusæti í Pepsi Max-deildinni.
KR-ingar voru komnir í undanúrslit bikarkeppninnar og einu sæti frá Evrópusæti í Pepsi Max-deildinni. vísir/hulda margrét

Aga- og úrskurðanefnd KSÍ hefur vísað frá málum KR og Fram sem kærðu stjórn KSÍ vegna ákvarðana varðandi lok Íslandsmótsins í fótbolta.

KR -ingar kröfðust þess að ákvörðun stjórnar KSÍ frá 30. október um að hætta keppni í Íslandsmótum og bikarkeppnum yrði felld úr gildi. Karlalið KR átti áður enn möguleika á að komast í Evrópukeppni, bæði í gegnum deild og bikar, og kvennalið KR átti enn möguleika á að halda sér í efstu deild.

Framarar voru í harðri baráttu um að komast upp í úrvalsdeild eftir langa bið, þegar keppni var blásin af.vísir/hag

Framarar kröfðust þess að sú ákvörðun stjórnar KSÍ að Leiknir R. fengi sæti í úrvalsdeild yrði ógilt, og að viðurkennt yrði að Fram og Leiknir hefðu verið jöfn þegar mótið var blásið af, samkvæmt sérstakri Covid-reglugerð sem stjórnin samþykkti í sumar. Í þeirri reglugerð var ekki tekið á því ef lið væru jöfn að stigum og mótið blásið af áður en öllum leikjum væri lokið, en Leiknir var með betri markatölu en Fram.

Aga- og úrskurðarnefnd vísaði báðum málum frá á þeim forsendum að ekki væri gert ráð fyrir því að ákvarðanir sem teknar væru af KSÍ sættu kæru til aga- og úrskurðanefndar nema sérstök heimild væri til þess í lögum og reglugerðum KSÍ. KSÍ gæti ekki verið varnaraðili málsins.

KR og Fram hafa nú þrjá daga til að áfrýja málum sínum til áfrýjunardómstóls KSÍ, kjósi þau svo.

Úrskurður vegna máls KR gegn KSÍ.

Úrskurður vegna máls Fram gegn KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×