Erlent

„Mig langaði bara að gera góðverk“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tónlistarkonan Dolly Parton gaf milljón dollara í baráttuna gegn Covid-19.
Tónlistarkonan Dolly Parton gaf milljón dollara í baráttuna gegn Covid-19. Getty/John Lamparski

Tónlistarkonan Dolly Parton segir að hún hafi einfaldlega viljað láta gott af sér leiða með fjárframlagi sínu til rannsóknarmiðstöðvar Vanderbilt-háskólans í Nashville en miðstöðin lék stórt hlutverk í rannsóknum og þróun bóluefnis bandaríska lyfjafyrirtækisins Moderna gegn kórónuveirunni.

Fyrirtækið tilkynnti í vikunni að fyrstu niðurstöður rannsóknanna bendi til þess að bóluefnið veitti 95% vernd gegn veirunni.

Parton greindi frá því í apríl að hún hefði gefið eina milljón dollara, eða sem samsvarar um 135 milljónum íslenskra króna, til rannsóknarmiðstöðvarinnar.

Hluti af upphæðinni fór í fyrsta fasa rannsókna og tilrauna með bóluefni Moderna og annar hluti upphæðarinnar fór í rannsóknir á því hvernig blóðvökvi getur nýst til að meðhöndla fólk með Covid-19.

Talsmaður Vanderbilt-háskólans sagði rausnarlega gjöf Parton hafa hjálpað mikið til á fyrstu stigum tilrauna með bóluefnið.

Parton var í viðtali hjá Today á NBC-sjónvarpsstöðinni í gær. Þar sagðist hún vera hamingjusöm með að geta hjálpað öðrum.

„Mig langaði bara að gera góðverk og svo virðist vera sem þetta hafi verið til góðs. Við skulum vona að við vinnum lækningu mjög fljótt,“ sagði Parton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×