Viðskipti erlent

MAX-vélarnar fá grænt ljós í Bandaríkjunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þrjár af þeim 737-MAX vélum sem Icelandair átti að fá frá Boeing hafa meðal annars verið geymdar á þessu bílastæði í grennd við verksmiðju Boeing við Seattle í Bandaríkjunum.
Þrjár af þeim 737-MAX vélum sem Icelandair átti að fá frá Boeing hafa meðal annars verið geymdar á þessu bílastæði í grennd við verksmiðju Boeing við Seattle í Bandaríkjunum. Getty/David Rider

Bandarísk flugmálayfirvöld hafa aflétt nærri tveggja ára löngu flugbanni á Boeing 737 MAX flugvélarnar. Afléttingin gildir um Bandaríkin.

Flugmálayfirvöld um allan heim settu flugvélarnar í flugbann eftir tvö mannskæð flugslys í Indónesíu og Eþíópíu árið 2019 sem alls kostuðu 365 manns lífið. Flugslysin voru meðal annars rakin til hönnunar vélanna sem voru fyrst settar á markað árið 2017.

Bandaríska flugmálastofnunin hefur gefið út flughæfnisvottorð fyrir flugvélarnar sem þýðir að brátt munu þær geta snúið aftur í loftið. Fjölmörg flugfélög hafa mátt þolað talsvert tjón vegna flugbannsins, þar á meðal Icelandair sem hafði tekið þrjár slíkar vélar í notkun, og alls er gert ráð fyrir tólf slíkum vélum í flota flugfélagsins.

Boeing hefur að undanförnu unnið að því með yfirvöldum í Bandaríkjunum að vinna að endurbótum á flugvélinni og munu bandarísk flugfélög geta tekið vélina aftur í notkun eftir að búið er að uppfylla þær kröfur sem settar eru fram af flugmálayfirvöldum, þar með talið hugbúnaðaruppfærsla og þjálfun flugmanna.

Aðeins er búið að afnema flugbannið í Bandaríkjunum og ekki liggur fyrir hvenær flugmálayfirvöld í öðrum ríkjum taki sömu skref og flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Icelandair reiknar með að vera komið á sléttan sjó eftir fjögur ár

Áætlanir Icelandair gera ráð fyrir að félagið verði komið í svipaða stöðu og það var í á þar síðasta ári og í fyrra eftir fjögur ár. Forstjórinn er bjartsýnn á allt að tuttugu og þriggja milljarða hlutafjáraukningu sem samþykkt var á hluthafafundi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×