Bóluefni Oxford og AstraZeneca við kórónuveirunni myndar sterk ónæmisviðbrögð hjá fólki á sjötugs- og áttræðisaldri. Þetta kom fram í grein sem rannsakendur birtu í læknaritinu Lancet í morgun.
Niðurstöðurnar eru byggðar á öðru stigi tilrauna með bóluefnið en nú standa yfir mun umfangsmeiri tilraunir á þriðja og síðasta stigi. Þessar niðurstöður benda til þess að bóluefnið virki og geti verndað þá sem eru í helstu áhættuhópum.
Á síðustu vikum hafa sömuleiðis borist jákvæðar fréttir af bóluefnum sem bandarísku fyrirtækin Pfizer og Moderna þróa. Þau hafa verið sögð veita um 95 prósenta vernd gegn veirunni. Bóluefni Sputnik í Rússlandi var sagt veita álíka mikla vernd en samkvæmt breska ríkisútvarpinu eru skiptar skoðanir um áreiðanleika niðurstaðna Rússanna.
Það sem skilur Oxford-bóluefnið að frá hinum er hins vegar það að ekki þarf að geyma efnið í miklu frosti. Því gæti orðið auðveldara að dreifa því til fólks.
Bretlandsstjórn hefur pantað mun meira af Oxford-bóluefninu en nokkru öðru. Hundrað milljónir skammta, samanborið við fjörutíu milljónir frá Pfizer og fimm milljónir frá Moderna.
Andrew Pollard, sem leiðir rannsókn Oxford-háskóla, sagðist himinlifandi í samtali við breska ríkisútvarpið. Þá sagðist hann búast við því að birta sams konar tölur og Pfizer og Moderna hafa gert fyrir jól.
Ísland fær aðgengi að bóluefni í gegnum Evrópusambandið sem hefur þegar samið við nokkur fyrirtæki, meðal annars Pfizer og AstraZeneca, sem framleiðir Oxford-bóluefnið.