Dagný Brynjarsdóttir getur ekki tekið þátt í síðustu tveimur leikjum íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í undankeppni EM vegna meiðsla.
Þá hefur Sandra María Jessen dregið sig út úr íslenska hópnum sem mætir Slóvakíu og Ungverjalandi ytra um næstu mánaðarmót. Sandra María er í sóttkví eftir að kórónuveirusmit kom upp í liði hennar, Bayer Leverkusen í Þýskalandi.
Í stað þeirra Dagnýjar og Söndru Maríu hefur Jón Þór Hauksson kallað inn tvo nýliða í landsliðið; Kristínu Dís Árnadóttur, varnarmann Íslandsmeistara Breiðabliks, og Bryndísi Örnu Níelsdóttur, framherja Fylkis.

Kristín Dís, sem er 21 árs, lék alla fimmtán leiki Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna í sumar. Liðið fékk aðeins þrjú mörk á sig og hélt marki sínu þrettán sinnum hreinu. Kristín Dís hefur leikið 29 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað þrjú mörk.

Bryndís Arna, sem er sautján ára, skoraði tíu mörk í fimmtán deildarleikjum í sumar og var langmarkahæsti leikmaður Fylkis. Hún hefur skorað sex mörk í fjórtán leikjum fyrir yngri landslið Íslands.
Dagný missti einnig af síðasta leik Íslands í undankeppninni, 2-0 tapi fyrir Svíþjóð. Íslendingar eru í 2. sæti F-riðils undankeppninnar og eiga góðan möguleika á að komast á EM. Til þess þarf íslenska liðið þó að vinna Slóvakíu 26. nóvember og Ungverjaland 1. desember.