Erlent

Mótmælendur kveiktu í þinghúsinu í Gvatemala

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælandi hendir mynd af fyrrverandi þingforseta Gvatemala á eld sem logar í hluta þinghúss landsins í gær.
Mótmælandi hendir mynd af fyrrverandi þingforseta Gvatemala á eld sem logar í hluta þinghúss landsins í gær. AP/Oliver De Ros

Hundruð mótmælenda brutust inn í þinghús Gvatemala og lögðu eld að því. Reiði mótmælenda beinist að Alejando Giammattei forseta og þingmönnum sem samþykktu umdeild fjárlög sem skáru framlög til mennta- og heilbrigðismála við nögl.

AP-fréttastofan segir að um 10.000 manns hafi komið saman til að mótmæla spillingu og fjárlögunum fyrir utan Þjóðarhöllina, eitt þekktasta kennileita Gvatemala-borgar í gær. Mótmælendurnir saka stjórn landsins um að lauma fjárlögunum í gegn á meðan þjóðin glímdi við tvo fellibylji og kórónuveirufaraldurinn.

„Mér finnst að það sé verið að stela framtíðinni frá okkur. Við sjáum engar breytingar, þetta getur ekki haldið svona áfram,“ sagði Mauricio Ramírez, tvítugur háskólanemi, sem tók þátt í mótmælunum.

Fjárlögin ollu meðal annars hneykslan margra þar sem þingmenn samþykktu að skera niður framlög til fórnarlamba kórónuveirufaraldursins og mannréttindastofnana á sama tíma og þeir skömmtuðu sér matarpeninga.

Hluti um þúsund mótmælenda fyrir utan þinghúsið í borginni brutust inn og kveiktu í hluta byggingarinnar. Lögreglumenn skutu táragasi á mótmælendurna og eru tugir manna sagðir hafa særst. AP segir umfang skemmdanna á þinghúsinu ekki ljóst ennþá. Eldurinn virðist aðallega hafa brunnið í skrifstofurými en ekki þingsalnum sjálfum.

Giammattei fordæmdi mótmælendurna á Twitter í gærkvöldi.

„Hverjum þeim sem er sannað að hafi tekið þátt í glæpum verður refsað með fullum krafti laganna,“ sagði forsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×