Innlent

„Deilan er á alvarlegum og erfiðum stað“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ríkissáttasemjari hugar að sóttvörnum við upphaf fundar hjá samninganefnd ríkisins og Félags flugvirkja.
Ríkissáttasemjari hugar að sóttvörnum við upphaf fundar hjá samninganefnd ríkisins og Félags flugvirkja. Vísir/vilhelm

Samninganefndir flugvirkja Landhelgisgæslunnar og ríkisins héldu til samningafundar klukkan 11.30 í dag.  Ríkissáttasemjari boðaði til fundarins vegna alvarlegrar stöðu sem blasir við hjá gæslunni.

Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni hafa verið í verkfalli í rúmar tvær vikur. Að óbreytti gæti viðbragðsgeta gæslunnar skerst verulega. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar að staðan hefði sennilega aldrei verið jafn alvarleg hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Það væri óviðunandi að hafa ekki lágmarks björgunarþjónustu og því þyrftu deilendur að finna lausn á kjaradeilunni án tafar. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra sem fer með málefni gæslunnar, hefur það til skoðunar að setja lög á verkfallið til að tryggja öryggi.

Í ljósi alvarlegrar stöðu sem blasir við ákvað Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari að boða deiluaðila til fundar í dag.

„Nú hefur vinnustöðvun staðið yfir í rúmar tvær vikur og við höfum heyrt frá Landhelgisgæslunni að ástandið verður sífellt þyngra. Deilan er á alvarlegum og erfiðum stað en ég vona, sérstaklega í ljósi þess hversu alvarleg deilan er, að samningsaðilar nýti þá orku til að leita lausna og finna leiðir til að ná sátt,“ sagði Aðalsteinn.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við mbl.is að frá og með miðnætti á miðvikudag verði engin þyrla til taks hjá gæslunni vegna viðhalds TF-GRO, óháð því hvernig gengur í samningaviðræðum flugvirkja og ríkisins. Ásgeir sagði að viðhaldstíminn yrði í besta falli tveir sólarhringar.

Ekki hefur náðst í formann Félags flugvirkja við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×