Innlent

Dómsmálaráðherra efast um verkfallsrétt flugvirkja

Heimir Már Pétursson skrifar

Dómsmálaráðherra segir vafa undirorpið að verkfallsaðgerðir flugvirkja Landhelgisgæslunnar standist lög sem banni hindranir á björgun og löggæslu. Eina flughæfa þyrla Landhelgisgæslunnar verður ónothæf eftir miðnætti annað kvöld hvort sem samningar takast við flugvirkja eða ekki.

Hluti flugvirkja Landhelgisgæslunnar sem sjá um viðhald á þyrluflota hennar fóru í verkfall hinn 5. nóvember sem stendur enn. Ekki náðist árangur á sáttafundi hjá ríkissáttasemjara í gær og nýr fundur hefur ekki verið boðaður. Ríkisstjórnin ræddi möguleika í stöðunni á fundi sínum í morgun. Landhelgisgæslan er með tvær þyrlur í notkun. Önnur þeirra bíður eftir margra vikna reglubundinni skoðun og hin á að fara í skoðun á miðnætti annað kvöld sem tæki að lágmarki tvo daga.

Ef á að setja lög er þá ekki ljóst að það yrði að gera mjög fljótlega?

Ríkisstjórnin ræddi möguleika í stöðunni vegna verkfalls flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni á fundi sínum í dag.Vísir/Vilhelm

„Jú, það er auðvitað forgangsverkefni okkar að tryggja öryggi almennings. Við þurfum að leita allra leiða til þess í þessari alvarlegu stöðu sem er komin upp," segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Það sé hins vegar ljóst að þyrlan þurfi hvað sem öðru líður að fara í að minnsta kosti tveggja daga skoðun. Allir möguleikar í stöðunni væru skoðaðir en best yrði að samningar næðust. Þá velti ráðherra fyrir sé verkfallsrétti flugvirkjanna.

„Ef maður les lögin frá 2006 þar sem aðrir sem starfa hjá Gæslunni eru ekki með sama rétt vegna þess að það á ekki að vera hægt að stöðva björgunar- og löggæsluþjónustu. Þetta mikilvæga öryggishlutverk sem Landhelgisgæslan hefur. Þannig að þetta er kannski svolítið ósamræmanlegt því," segir Áslaug Arna.

Dómsmálaráðherra veltir fyrir sér hvort verkfall flugvirkja Landhelgisgæslunnar stenst lög sem banni hindrun björgunar- og löggæslustarfa.Vísir/Vilhelm

Almannavarnanefnd Vestmannaeyja, sjúkraflutningamenn, jarðvísindamenn og fleiri hafa lýst alvarlegum áhyggjum af þeirri stöðu sem uppi er varðandi þyrlur Landhelgisgæslunnar. Þá dregur mjög úr öryggi sjófarenda ef þyrlurnar eru ekki til taks.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×