Innlent

„Bálhvasst mjög víða og fljúgandi hálka. Svo er mjög dimmt í éljunum og hann er enn að hvessa“

Tryggvi Páll Tryggvason og Birgir Olgeirsson skrifa
Blessunarlega fylgir ekki mikill snjór þessu óveðri, en þó einhver.
Blessunarlega fylgir ekki mikill snjór þessu óveðri, en þó einhver. Vísir/Vilhelm

Veðrið er ekki skaplegt.

„Það er bálhvasst mjög víða og fljúgandi hálka. Svo er mjög dimmt í éljunum og hann er enn að hvessa um landið norðvestanvert og það verður rok og jafnvel sumstaðar ofsaveður í nótt fyrir norðan, allt austur í Eyjafjörð.“

Þetta sagði Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur um óveðrið sem nú gengur yfir mest allt landið, í samtali við Birgi Olgeirsson í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Appelsínugular viðvaranir eru í gildi á Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og norðurlandi vestra. Gilda þær til miðnættis. Þá eru einnig gular viðvaranir í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Norðurlandi eystra, Suðausturlandi og Miðhálendi fram eftir morgundeginum og í sumum tilvikum lengur.

Hvernig verður þetta á morgun?

„Hann gengur smám saman niður, ekki mikið samt. Það verður hvasst allan morgundaginn og svo sljákkar í honum á laugardeginum, seinnipart laugardagsins verður nú líklega orðið skaplegt veður.“

Hvernig er með ferðalög á milli byggðarlaga á morgun?

„Það verður hálka að öllum líkindum og ekkert sérstaklega gott ferðaveður en þetta gæti verið verra samt. Það er ekki mjög mikill snjór með þessu og svo fýkur hann líka burt.“

Veturkonungur er þá kominn til að vera.?

„Já, það er viðbúið. Það verður skaplegt veður líklega á sunnudaginn en svo verður líklega hörkufrost, það verður brunagaddur á mánudagsmorgni og svo kemur næsta lægð strax á mánudagskvöld.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×