Nafn bæjarins, sem er að finna norður af Salzburg, nærri landamærunum að Þýskalandi, hefur leitt til straums ferðamanna í gegnum árin sem hefðu líklegast alla jafna ekki lagt leið sína þangað.
En þetta óheppilega nafn, sem hefur þó verið notað í um þúsund ár, hefur einnig leitt til þess að óprúttnir aðilar hafi ítrekað stolið götuskiltum með nafni bæjarins og hefur kostnaður við endurnýjun fallið á bæjarbúa. Sömuleiðis hefur verið talsvert ónæði af gestum sem hafa látið mynda sig við skiltin.
Andrea Holzner bæjarstjóri greindi frá því í gær í samtali við Ö24 að ákvörðun hafi verið tekin um að nafni bæjarins skyldi breytt í Fugging frá og með 1. janúar næstkomandi.
Alls búa um hundrað manns í Fucking og hefur meirihlutinn lengi þrýst á um nafnabreytingu.
Það var fyrst með komu internetsins sem augu fólks fóru að beinast að Fucking, sem hafði fram að því að mestu sloppið við athygli heimsbyggðarinnar. Var bænum ítrekað komið fyrir á listum yfir bæi með óheppileg nöfn, og skipaði raunar oft á tíðum efsta sæti slíkra lista.
DW segir frá því að Fugging lýsi betur framburði heimamanna á bæjarheitinu. Enn hafa ekki borist fréttir af því hvaða áhrif nafnabreytingin kunni að hafa á nágrannabæina Oberfucking og Unterfucking.