Enski boltinn

Jiménez höfuðkúpubrotnaði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samherjar Raúls Jiménez kalla eftir aðstoð eftir að hann lenti í harkalegu samstuði við David Luiz.
Samherjar Raúls Jiménez kalla eftir aðstoð eftir að hann lenti í harkalegu samstuði við David Luiz. getty/John Walton

Raúl Jiménez, framherji Wolves, höfuðkúpubrotnaði í sigrinum á Arsenal, 1-2, í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann gekkst undir aðgerð sem heppnaðist vel.

Jiménez meiddist illa og missti meðvitund þegar hann lenti í samstuði við David Luiz, varnarmann Arsenal, snemma leiks. Hann var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús í London þar sem hann gekkst undir aðgerð.

Í tilkynningu frá Wolves kemur fram að Jiménez hafi höfuðkúpubrotnað en sé á góðum batavegi. Mexíkóinn verður undir eftirliti næstu daga meðan hann byrjar endurhæfingu.

Gera þurfti tíu mínútna hlé á leiknum á Emirates í gær meðan hugað var að Jiménez og Luiz. Sá síðarnefndi hélt leik áfram en var svo tekinn af velli í hálfleik.

Pedro Neto og Daniel Podance skoruðu mörk Wolves í leiknum í gær. Þetta var fyrsti sigur þeirra á Arsenal á útivelli síðan 1979. Með sigrinum komust Úlfarnir upp í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×