Um 30.000 manns taka þátt í tilraunum Moderna með bóluefnið. Þrjátíu manns veiktust alvarlega af Covid-19 en þeir voru allir í hópnum sem fengu lyfleysu í stað raunverulega bóluefnisins. Washington Post segir að niðurstöðurnar hafi enn hvorki verið birtar opinberlegar né ritrýndar. Eftirlitsstofnanir muni nú leggjast yfir þær til að meta hvort bóluefnið sé öruggt og virkt.
Áður hafði lyfjarisinn Pfizer og líftæknifyrirtækið BioNtech sóst eftir leyfi fyrir sitt bóluefni í Evrópu og Bandaríkjunum. Í Evrópu fara lyfjayfirvöld einnig yfir sambærilega umsókn AstraZeneca um leyfi fyrir bóluefni. Misvísandi upplýsingar hafa þó komið fram um bóluefni AstraZeneca en áframhaldandi rannsóknir standa yfir á virkni þess.
Bóluefni Moderna var þróað í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna. Í tilraunahópnum fengu 196 manns Covid-19. Af þeim fengu 185 manns lyfleysu en ellefu bóluefnið. Einn þeirra þrjátíu sem sýktust alvarlega lét lífið, að sögn AP-fréttastofunnar.
Einu aukaverkanir bóluefnisins sem hafa komið fram til þessa eru tímabundin flensueinkenni, að sögn Moderna.