Fótbolti

„Ungu stelpurnar frá­bærar í bland við þær gömlu“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gunnhildur Yrsa í leik fyrr í undankeppninni.
Gunnhildur Yrsa í leik fyrr í undankeppninni. vísir/vilhelm

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var himinlifandi með 1-0 sigurinn á Ungverjalandi í dag. Sigurinn fleytir Íslandi mögulega á EM 2022.

„Við tókum þrjú stig og héldum hreinu. Við hefðum viljað setja fleiri en svona er fótboltinn. Þetta var ekki okkar besti leikur en við fórum í þetta verkefni og náðum í sex stig,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir í samtali við Vísi. Hún var sátt með sex stig í pokanum eftir ferðina.

„Þetta voru erfið lið og eiga hrós skilið. Bæði lið eru komin langt. Þær eru góðar og var erfitt að brjóta þær niður. Ég er ánægð með sex stigin en við hefðum viljað skora fleiri mörk.“

Íslenska liðið fær þó væntanlega ekki að vita hvort að þær séu komnar beint á EM eða þurfi í umspil fyrr en í febrúar.

„Það er erfitt að bíða svona en vonandi verða úrslitin okkar í hag. Við þurfum að bíða. Þurftum að einbeita okkur að okkar. Það er erfitt að bíða frá öðrum úrslitum en við höfum gert okkar. Þetta er bara auka spenna.“

Æfinga- og keppnisbann hefur verið við lýði á Íslandi og margir í hópnum hafi hvorki getað æft fótbolta né spilað.

„Það er erfitt að margar í liðinu hafa ekki spilað síðan ég man ekki hvenær. Fókusinn og einbeitingin var í lagi hjá öllum leikmönnum. Það vissu allar hvað væri undir og héldu sér í formi. Leikmennirnir sem voru í Evrópu komu í frábæru formi og drógu liðið áfram.“

Gunnhildur er ánægð með undankeppnina og árangurinn.

„Mér fannst liðið í heild sinni spila frábæra undankeppni. Það er erfitt að byrja riðilinn svona snemma og að halda einbeitingunni í hálft ár er frábært. Ungu stelpurnar frábærar í bland við þær gömlu,“ sagði Gunnhildur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×