Keenan var bólusett á háskólasjúkrahúsinu í Coventry í Bretlandi en Bretar hófu bólusetningu í morgun, fyrstir þjóða, eftir að yfirvöld þar í landi samþykktu bóluefni Pfizer í liðinni viku.
Keenan verður 91 árs í næstu viku og sagði að bólusetningin væri besta afmælisgjöf sem hún gæti hugsað sér. Hún átti skartgripaverslun og settist ekki í helgan stein fyrr en hún var orðin 86 ára.
„Mér líður eins og ég njóti mikilla forréttinda að vera fyrsta manneskjan sem er bólusett gegn Covid-19, þetta er besta afmælisgjöf sem ég hefði getað óskað mér því þetta þýðir að ég get nú hlakkað til að verja tíma með fjölskyldu minni og vinum á nýju ári eftir að hafa verið alein mestan hluta þessa árs,“ sagði Keenan við tilefnið í morgun.
Hjúkrunarfræðingurinn Matron May Parsons bólusetti Keeanan og sagði skartgripasalinn fyrrverandi að hún gæti ekki þakkað May og breska heilbrigðiskerfinu, NHS, nægilega fyrir að hugsa svo vel um sig.
„Ég ráðlegg öllum að láta bólusetja sig. Ef ég get fengið bóluefnið 90 ára gömul getur þú fengið það líka,“ sagði Keenan.
Þessi sögulegi dagur er kallaður V-day í Bretlandi með vísan í enska orðið fyrir bólusetningu, „vaccination“.
800 þúsund skammtar af bóluefni Pfizer verða gefnir í Bretlandi á næstu vikum. Í fyrstu atrennu í Englandi fær fólk yfir áttræðu sprautu með efninu frá Pfizer/BioNTech og einnig tilteknir heilbrigðisstarfsmenn.
Í Skotlandi er annar háttur hafður á, þar fá þeir sem gefa bóluefnið fyrstir sprautu og í Wales og á Norður-Írlandi eru heilbrigðisstarfsmenn í fyrsta forgangi.