Innlent

„Lokaspretturinn er að hefjast“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir gríðarlega mikilvægt að sem flestir Íslendingar láti bólusetja sig við kórónuveirunni. Þá segir hún tilefni til bjartsýni til nýs árs. Nú sé lokaspretturinn í baráttunni við veiruna að hefjast.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu sem Katrín birti á síðu sinni skömmu fyrir klukkan fimm. Þar segir að ljóst sé að bólusetning Íslendinga við kórónuveirunni muni hefjast í upphafi nýs árs, en bólusetning við Covid-19 hófst í Bretlandi í dag.

Þá vísaði Katrín til skoðanakönnunar Maskínu sem sýndi að 92% landsmanna ætluðu að skrá sig í bólusetningu. Það segir Katrín mikilvægt og að „því fleiri sem láta bólusetja sig því betur og hraðar verðum við varin fyrir veirunni.“

„Þetta eru tímamót í baráttunni gegn veirunni og við getum óhikað litið með bjartsýni til nýs árs. Samfélagið okkar mun þá byrja að færast smátt og smátt í eðlilegt horf. Við getum farið að njóta samvista óhindrað og efnahagslífið getur spyrnt kröftuglega við fótum og atvinnuleysi byrjað að ganga niður.“

Þá fjallaði Katrín um þær sóttvarnaaðgerðir sem kynntar voru í dag og munu gilda til 12. janúar, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra.

„Þetta verða ekki síðustu aðgerðirnar í baráttunni en nú þegar bólusetningar eru í augsýn er ljóst að lokaspretturinn er að hefjast,“ skrifaði Katrín.

„Við höfum öll staðið okkur frábærlega fram til þessa, sýnt ótrúlegt úthald og þolinmæði. Nú þurfum við klára þessa vegferð og leggja okkur sérstaklega fram og þannig tryggja að smit verði áfram í lágmarki þar til okkur hefur tekist að verja samfélagið með bólusetningum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×