Erlent

Meintur njósnari sængaði hjá minnst tveimur borgarstjórum

Samúel Karl Ólason skrifar
Embættis- og löggæslumenn segja að verkefni njósnarans hafi líklegast verið að mynda tengsl við rísandi stjörnur í bandarískum stjórnmálum svo hægt væri að nota þau tengsl Kína í hag í framtíðinni.
Embættis- og löggæslumenn segja að verkefni njósnarans hafi líklegast verið að mynda tengsl við rísandi stjörnur í bandarískum stjórnmálum svo hægt væri að nota þau tengsl Kína í hag í framtíðinni. AP/Andy Wong

Kínversk kona, sem grunuð um að vera njósnari á vegum leyniþjónustu ríkisins, sængaði hjá minnst tveimur bandarískum borgarstjórum og myndaði tengsl við aðra stjórnmálamenn á vesturströnd Bandaríkjanna á árunum 2011 til 2015.

Þeirra á meðal eru tveir þingmenn Demókrataflokksins sem báðir hafa boðið sig fram til forseta.

Fang Fang, sem gekk einnig undir nafninu Christine Fang, fór frá Bandaríkjunum þegar Alríkislögregla Bandaríkjanna var að rannsaka hana og hefur aldrei snúið aftur.

Þetta kemur fram í ítarlegri grein Axios um mál Fang sem birt var í gær.

Meðal þess sem fram kemur í grein Axios er að Fang fluttist til Bandaríkjanna árið 2011 og skráði sig í háskóla. Þá notaði hún stöðu sína sem forseti nemendasamtaka að mynda tengsl við stjórnmálamenn á svæðinu. Hún vann sem sjálfboðaliði við framboð stjórnmálamanna og kom að fjáröflun þeirra.

Hún kom meðal annars að fjársöfnun fyrir þingmennina Eric Swalwell, Tulsi Gabbard og Ro Khanna.

Fang hitti Swalwell fyrst þegar hann var borgarfulltrúi í Dublin City í Kaliforníu en þegar hann varð þingmaður vöruðu rannsakendur FBI hann við því að hún væri grunuð um að vera útsendari yfirvalda í Kína. Hann sleit öll tengsl við hana og samkvæmt frétt Axios hefur Swalwell ekki verið grunaður um að hafa brotið af sér.

Útsendarar vöruðu aðra stjórnmálamenn einnig við umsvifum Fang á tímabilinu. Ekki er þó talið að hún hafi komið höndum yfir leynilegar upplýsingar.

Samkvæmt frétt Politico hefur Swalwell áhyggjur af því að upplýsingum um Fang hafi verið lekið til að koma pólitísku höggi á hann. Hann hafi fyrst fengið veður af því að Axios væri að skoða mál hins meinta njósnara í júlí í fyrra. Þá var hann að binda enda á stutt forsetaframboð sitt og sat í tveimur þingnefndum sem komu að ákærunni gegn Donald Trump, forseta, fyrir embættisbrot.

Fang sótti ráðstefnur bandarískra borgarstjóra þar sem hún víkkaði út tengslanet sitt og átt í sambandi við minnst tvo borgarstjóra, á meðan hún var undir eftirliti útsendara FBI.

Embættis- og löggæslumenn sem Axios ræddi við segja að verkefni Fang hafi líklegast verið að mynda tengsl við rísandi stjörnur í bandarískum stjórnmálum svo hægt væri að nota þau tengsl Kína í hag í framtíðinni.

John Ratcliffe, æðsti yfirmaður leyniþjónusta Bandaríkjanna, sagði í nýlegri grein sem hann skrifaði í Wall Street Journal að Kommúnistaflokkur Kína hefði staðið fyrir umfangsmikilli áróðurs- og áhrifaherferð gagnvart tugum bandarískra þingmanna.

Hann sakaði Kínverja einnig um umfangsmikla njósnastarfsemi í Bandaríkjunum.

https://www.visir.is/g/20202045643d/segir-kina-aetla-ad-drottna-yfir-bandarikjunum-og-heiminum-ollum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×