Erlent

Bólu­efni Pfizer skrefi nær því að verða sam­þykkt í Banda­ríkjunum

Sylvía Hall skrifar
Pfizer-bóluefnið er sagt veita öfluga vörn gegn veirunni. 
Pfizer-bóluefnið er sagt veita öfluga vörn gegn veirunni.  Jakub Porzycki/NurPhoto/Getty

Ráðgjafanefnd ríkisstjórnar Bandaríkjanna hefur lýst yfir stuðningi við notkun á bóluefni Pfizer við kórónuveirunni. Gert er ráð fyrir því að matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) muni fylgja þeirri niðurstöðu.

AP-fréttaveitan greinir frá því að nefndin hafi komist að þessari niðurstöðu í kvöld með sautján atkvæðum gegn fjórum, en einn sat hjá við atkvæðagreiðslu. Ráðgjafanefndin telur bóluefnið vera öruggt og virki vel á fólk yfir sextán ára aldri.

Lokaniðurstöðu er að vænta frá matvæla- og lyfjaeftirlitinu, en verði bóluefnið samþykkt er gert ráð fyrir því að ráðist verði í umfangsmikla bólusetningu á landsvísu. Heilbrigðisstarfsfólk og íbúar á hjúkrunarheimilum yrðu þar í fyrsta forgangshópi og almenningur myndi svo fylgja í vor.

Hátt í 300 þúsund Bandaríkjamenn hafa látið lífið af völdum veirunnar og eru því miklar vonir bundnar við að bólusetning hefti útbreiðslu veirunnar svo um munar fljótlega eftir að hún hefst. Smitum hefur fjölgað verulega milli daga og greindust tæplega 220 þúsund Bandaríkjamenn í gær.

Ráðgjafanefndinni er lýst sem nokkurskonar vísindadómstóli, þar sem bóluefnið er tekið fyrir og sérfræðingar rýna í fyrirliggjandi gögn. Dr. Dorian Fink hjá matvæla- og lyfjaeftirlitinu sagði nauðsynlegt að slík skoðun færi fram.

„Almenningur krefst þess og á það skilið að umfangsmikil, heildstæð og sjálfstæð skoðun fari fram á gögnunum.“

Áætlað er að bóluefni Moderna verði tekið fyrir síðar í mánuðinum, en það var sagt veita allt að 95 prósenta vörn gegn veirunni. Bóluefni Johnson & Johnson eru einnig á áætlun, sem og bóluefni AstraZeneca.


Tengdar fréttir

Virknin 70% en skammtastærðinni mögulega breytt

Bóluefni AstraZeneca og vísindamanna við Oxford-háskóla hefur 70% virkni ef horft er til heildarniðurstaða prófana. Virknin reyndist 90% hjá litlum hluta þátttakenda sem fékk óvart ranga skammtastærð en hjá meirihlutanum reyndist virknin 62%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×