Douglas mun fara með hlutverk Ronalds Reagan, fyrrverandi Bandaríkjaforseta og Waltz mun leika Mikhail Gorbatsjov, að því er miðillinn Deadline greinir frá. Ekki fylgir sögunni hvort tökur muni fara fram í Reykjavík en það verður forvitnilegt að sjá.
Þáttaröðin mun byggja á bókinni Reagan í Reykjavík: 48 klukkustundir sem bundu enda á kalda stríðið, eftir Ken Adelman en Adelman gegndi embætti forstöðumanns vopnaeftirlitsins í Reagan-stjórninni. Adelman flutti fyrirlestur um bókina fyrir nokkrum árum þar sem Vigdís Finnbogadóttir kom meðal annars við sögu.
Samkvæmt frétt Deadline hefst vinnsla þáttanna mjög fljótlega. Sjálfir munu Michael Douglas, Christoph Waltz og James Foley, auk Youtchi von Lintel fara með framleiðslu þáttanna.
Þáttaröðin er sögð munu fela í sér „dramatíska frásögn af hinum sögulega leiðtogafundi“ Reagan og Gorbatsjov á Íslandi, fund sem fram fór fram yfir „helgi sem markaði vatnaskil í kalda stríðinu,“ líkt og það er orðað í frétt Deadline, þar sem sagan er sögð frá sjónarhóli yfirmanns afvopnunar- og vopnaeftirlitsmála.

„Skipulagður sem stuttur og fremur veigalítill fundur, hugsaður til að skipuleggja framtíðarviðræður, snérist fljótlega upp í umræður um meiriháttar alþjóða- og utanríkismál, meðal annars um stjörnustríðsáætlunina svokölluðu (e. Strategic Defense Initiative) og um möguleikann á gjöreyðingu kjarnorkuvopna,“ segir um leiðtogafundinn í frétt Deadline.
„Samningaviðræðurnar lögðu grunninn að merkustu afvopnunarsamningum í sögunni ári síðar. Þetta var helgi sem breytti heiminum og þættirnir bjóða upp á heiðarlega nærmynd af Reagan á einum af sínum bestu augnablikum þar sem hann stóð frami fyrir áskorunum,“ segir ennfremur í fréttinni.