Guterres gagnrýndi ríkar þjóðir fyrir að verja um 50% meira fjármagni í jarðefnaeldsneyti heldur en í umhverfisvæna orkugjafa í áætlunum sínum um viðspyrnu í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Hann sagði að þessu fjármagni sé varið á kostnað komandi kynslóða.
Alls munu ríflega sjötíu leiðtogar hvaðanæva að úr heiminum flytja ávarp á leiðtogafundinum í dag, þeirra á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, en Bretland og Frakkland auk Sameinuðu þjóðanna áttu frumkvæði að því að halda fundinn.
Guterres sagði að þegar hafi 38 ríki lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og kallaði hann eftir því að fleiri leiðtogar ríkja heims myndu fylgja því fordæmi og gera slíkt hið sama. Neyðarástandi verði fyrst hægt að aflýsa þegar kolefnishlutleysi hafi verið náð.