Skoðun

Neyðarástand

Jóna Þórey Pétursdóttir skrifar

Um helgina kallaði Aðalritari Sameinuðu þjóðanna eftir því að ríki heimsins lýstu yfir neyðarástandi vegna hamfarahlýnunar. Þetta ákall Antonio Guterres er hið sama og loftslagsverkfallið á Íslandi hefur talað fyrir undanfarin tvö ár. Á fundum með fulltrúum ríkisstjórnarinnar, ráðherrum og öðrum aðilum hafa fulltrúar loftslagsverkfalls, námsfólk, stúdentar, ungmenni og börn, útskýrt hvers vegna þetta skiptir máli. Ríkisstjórn Íslands hefur hunsað kröfu loftslagsverkfallsins hingað til, ætlar hún líka að hunsa ákall aðalritara Sameinuðu þjóðanna?

Á fundum verkfallsins með stjórnvöldum var ákalli verkfallsins iðulega mætt með orðum eins og: Hvað á eiginlega að felast í yfirlýsingu um neyðarástand? Hverju á það að breyta, hvers konar neyðarástand? Guð minn góður, það er engin leið að gera þetta. Reglulega var sú mynd máluð upp að valdhafar hefðu hvorki hugmyndaflugið né úrræðin til þess að gera þetta almennilega. Önnur ríki hafa lýst yfir neyðarástandi, vissulega með misgóðum árangri, en annmarkar á framkvæmd annarra ríkja í þessum efnum eru ekki afsökun fyrir stjórnvöld hérlendis að sitja með hendur í skauti. Þúsundir vísindafólks hafa sammælst um að þeim sé skylt að lýsa yfir neyðarástandi og að mannkynið þurfi að átta sig á því hve alvarleg staðan raunverulega er. Stjórnvöld hérlendis hljóta að vera nægilega útsjónarsöm til þess að finna fullnægjandi og viðeigandi leiðir til þess að mæta ákalli aðalritara Sameinuðu þjóðanna, loftslagsverkfallsins og fylgja fordæmi vísindafólks. Hér eru nokkrar ástæður til þess að lýsa yfir neyðarástandi, í samræmi við stöðuna sem nú er uppi í heiminum:

  • Yfirlýsing neyðarástands myndi í fyrsta lagi leiða til umræðu og enn frekari vitundarvakningar meðal almennings.
  • Í öðru lagi getur yfirlýsing um neyðarástand sýnt að stjórnvöld taki stöðuna sem upp er komin alvarlega.
  • Í þriðja lagi að stjórnvöld viðurkenni ákall ungu kynslóðarinnar og baráttu ungs fólks fyrir framtíð sinni.
  • Í fjórða lagi getur yfirlýsing um neyðarástand verið forsenda og grundvöllur fyrir því að ráðast í afdrifaríkari aðgerðir, sem verða kannski tímabundið óþægilegar fyrir einhverja. Ef samstaða myndast um grunnforsendu aðgerðanna leiðir það vonandi til þess að síður verði deilt um hve róttækar aðgerðir séu réttlætanlegar, enda sé mjög skýrt hver staða mála sé.
  • Í fimmta lagi getur yfirlýsingin sent skilaboð til alþjóðasamfélagsins ef vel er að henni staðið.
  • Breytt og ný viðmið í samfélaginu eru nauðsynleg. Það þarf að kanna hvernig framkvæmdir, aðgerðir, lagasetning eða aðrar aðgerðir stjórnvalda horfa við markmiði um kolefnishlutleysi. Stefnumótun í öllum málaflokkum verður að taka mið af loftslagsvánni, rétt eins og skylt er að leggja mat á jafnréttisáhrif í hvívetna í dag. Kennsla í skólum þarf að taka mið af því að það sem er undir fyrir komandi kynslóð er hvernig við slökkvum á 650 Eyjafjallajöklum eins og Andri Snær, rithöfundur orðaði það á málþingi sem ég sótti nýlega um loftslagvánna.

Viðurkenningar og verðlaun sem loftslagsverkfallið hefur hlotið hérlendis, eins og viðurkenning jafnréttisráðs, Maður ársins 2020 hjá Stöð 2, Bylgjunni og Vísi, Samviskusendiherra Amnesty o.fl. eru góðra gjalda verðar, en loftslagsverkföllin og baráttan vegna þeirra snýst ekki um að fá klapp á bakið – heldur að hlustað sé á ungu kynslóðina og gripið verði til afgerandi aðgerða.

Vel útfærðar og trúverðugar aðgerðir skipta að sjálfsögðu höfuðmáli og eitt útilokar ekki annað. Þvert á móti ætti vel útfærð og afgerandi yfirlýsing um neyðarástand vegna hamfarahlýnunar að haldast í hendur við metnaðarfullar aðgerðir. Það ætti í raun að vera lágmarksframtak að stjórnvöld geri borgurunum grein fyrir alvarleika ástandsins með skýrri yfirlýsingu um neyðarástand í málaflokknum. Yfirlýsingin ætti að vera grundvöllur nauðsynlegra kerfisbreytinga og róttækra aðgerða sem enn vantar töluvert upp á hérlendis, en það er efni í annan pistil. Þrálát andstaða ríkisstjórnarinnar við að sammælast um alvarleika vandans gefur of mikið rými fyrir efasemdaraddir til að þrífast. Kannski telja stjórnvöld í raun að ekki sé uppi neyðarástand í loftslagsmálum? Fréttir um að stjórnvöld veiti afslátt handa bílaleigum til að menga senda a.m.k. óþægileg skilaboð að þessu leyti.

Hlustið á loftslagsverkföllin og aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Kæra ríkisstjórn, boltinn er hjá ykkur. Lýsið yfir neyðarástandi strax.

Höfundur er forseti Rannveigar - Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×