Sport

Lars þegar búinn að hafna einu landsliðsþjálfarastarfi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lars Lagerbäck var látinn fara sem þjálfari norska landsliðið. Við starfi hans tók Ståle Solbækken.
Lars Lagerbäck var látinn fara sem þjálfari norska landsliðið. Við starfi hans tók Ståle Solbækken. GETTY/QUALITY SPORT IMAGES

Lars Lagerbäck hafnaði tilboði um að taka við landsliði Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Lars var nýverið látinn taka pokann sinn sem landsliðsþjálfari Noregs. Svíinn er fyrrverandi þjálfari íslenska landsliðsins og hefur verið orðaður við endurkomu í það starf, eða annað starf hjá KSÍ.

Það eru þó fleiri sem hafa áhuga á Lars og Expressen í Svíþjóð greinir frá því að Sameinuðu arabísku furstadæmin hafi viljað fá hann sem landsliðsþjálfara.

Per Joar Hansen, sem var aðstoðarþjálfari Lars með norska landsliðið, segir við Dagbladet í Noregi að þeir hafi nýverið hafnað tilboði um að taka við landsliði. Samkvæmt heimildum Expressen voru það Sameinuðu arabísku furstadæmin sem báru víurnar í Lars og vildu fá hann til að koma liðinu á HM 2022 í Katar.

Sameinuðu arabísku furstadæmin leituðu ekki langt yfir skammt og réðu Bert van Marwijk, manninn sem var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara fyrir ári.

Fyrir nokkrum dögum sagðist Ari Freyr Skúlason vilja fá Lars aftur sem landsliðsþjálfara Íslands. „Ég væri til í að sjá Lars taka við íslenska landsliðinu á nýjan leik. Hann byrjaði þetta ævintýri sem hefur verið í gangi undanfarin ár,“ sagði Ari.

Í síðustu viku greindi Ríkharð Óskar Guðnason frá því í Sportinu í dag að KSÍ vildi fá Lars í starf einhvers konar ráðgjafa eða tæknilegs stjórnanda yfir bæði karla- og kvennalandsliðinu.

Lars stýrði Íslandi á árunum 2012-16 með frábærum árangri. Undir stjórn hans og Heimis Hallgrímssonar komst íslenska liðið á sitt fyrsta stórmót, EM 2016, þar sem það fór alla leið í átta liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×