Ákvörðunin var tekin eftir að í ljós kom að í sumum glösum mátti finna allt að tvo auka skammta en samkvæmt Guardian gæti þetta þýtt að birgðir Bandaríkjamanna af bóluefninu séu 40% meiri en gert var ráð fyrir.
Pfizer hefur ekki tekið afstöðu til notkunar viðbótarefnisins og hefur bent þeim sem hafa umsjón með bólusetningum að hafa samband við viðeigandi stofnanir.
Politico hefur eftir fræðamanni að það sé algengt að framleiðendur setji aðeins meira í lyfjaglös þar sem gert sé ráð fyrir að eitthvað fari til spillis. Lyfjasérfræðingurinn Erin Fox við University of Utah segir þó óvenjulegt að finna heila aukaskammta afgangs í glösunum.
Sharon Castillo, talskona Pfizer, sagði í yfirlýsingu til Washington Post að umframmagnið í lyfjaglösunum, sem eiga að innihalda fimm skammta, sé mismikið eftir því hvaða nálar og sprautur séu notaðar.
En jafnvel þótt FDA hafi gefið heimild fyrir notkun aukaskammtanna er þó mælt gegn því að blanda skömmtum saman milli glasa.
Eftirlitsaðilar vestanhafs munu taka til umfjöllunar í dag beiðni lyfjafyrirtækisins Moderna um neyðarheimild vegna bóluefnis fyrirtækisins gegn Covid-19.
Þá munu Joe Biden, kjörinn forseti, og varaforsetinn Mike Pence verða bólusettir opinberlega fljótlega. Pence jafnvel á morgun og Biden líklega í næstu viku.