Erlent

Bandaríkjamenn búa sig undir snjóstorm

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Borgarstjóri New York hefur ráðlagt íbúum að fara varlega.
Borgarstjóri New York hefur ráðlagt íbúum að fara varlega. epa/Justin Lane

Bandaríkjamenn á austurströndinni búa sig nú undir mikla snjókomu og eru viðvaranir í gildi hjá sextíu milljónum manna. Búist er við að stormurinn nái allt frá Colorado og upp til Maine ríkis og viðvaranir vegna þessa eru í gildi í fjórtán ríkjum Bandaríkjanna.

Sumstaðar gæti jafnfallinn snjór náð allt að sextíu sentimetrum. 

Verst verður ástandið í kvöld að bandarískum tíma en þegar er farið að bera á vandamálum vegna veðursins. 

Í Pennsylvaníu létust að minnsta kosti tveir þegar fjölmargir bílar lentu í árekstri á hraðbraut sökum mikillar hálku en um 30 til 60 bílar lentu í árekstrinum. 

Bill de Blasio borgarstjóri New York borgar varar íbúana við því að stormurinn sem sé á leið þangað gæti orðið sá mesti í manna minnum og hvatti hann New York búa til að fara varlega. 

Hundruðum flugferða hefur þegar verið aflýst og lestarferðir liggja einnig víða niðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×