Erlent

Beina sjónum sínum að Rússum eftir um­fangs­mikla tölvu­á­rás

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin hefur beinst að bandarískum stofnunum.
Árásin hefur beinst að bandarískum stofnunum. EPA

Bandarísk yfirvöld segja umfangsmikla tölvuárás nú standa yfir á þarlendar opinberar stofnanir. Er sjónum nú beint að rússneskum tölvuþrjótum og eiga þeir að hafa fylgst með tölvupóstsamskiptum meðal annars innan bandaríska fjármála- og viðskiptaráðuneytisins.

Í yfirlýsingu frá netöryggisstofnuninni CISA og leyniþjónustustofnunni ODNI segir að árásirnar standi enn yfir og að unnið sé að því að ná utan um umfangið. Þó liggi fyrir að árásirnar beinist að innra neti alríkisstofnana.

Fyrst var greint frá árásunum í Washington Post fyrr í vikunni. Þar segir að ólögleg innbrot í tölvukerfi stofnana hafi ­staðið yfir síðan í vor og beinast sjónir alríkislögreglunnar FBI að hópi tölvuþrjóta sem er sagður starfa fyrir rússnesku leyniþjónustuna SVR.

Rússnesk stjórnvöld höfnuðu því fyrr í vikunni að bera ábyrgð á árásunum, en fjöldi bandarískra fulltrúadeildarþingmanna hafa sakað Rússa opinberlega um árásina. 

Þá hefur Dick Durbin, öldugadeildarþingmaður frá Illinois, sagt árásina svo gott sem jafnast á við stríðsyfirlýsingu af hálfu Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×