Erlent

Bólu­setning hefst í aðildar­ríkjum ESB þann 27. desember

Atli Ísleifsson skrifar
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands. Getty

Öll aðildarríki Evrópusambandsins munu hefja bólusetningar gegn Covid-19 þann 27. desember. Þetta segir Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands.

„Fái bóluefnið leyfi, líkt og reiknað er með, munum við hefja bólusetningar í Þýskalandi þann 27. desember. Hin aðildarríki ESB vilja líka vera reiðubúin og byrja þann 27. desember,“ sagði Spahn fyrir fund sinn með Angelu Merkel Þýskalandskanslara og forsvarsmönnum bóluefnaframleiðandans BioNTech í dag.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í gær að öll aðildarríki sambandsins eigi að hefja bólusetningu gegn Covid-19 sama daginn. Hún nefndi þá engan sérstakan dag en sagði að slíkt myndi sýna fram á samstöðu meðal ríkjanna.

Lyfjastofnun Evrópu tilkynnti á þriðjudag að fundi, þar sem afstaða verður tekin um hvort að veita skuli markaðsleyfi fyrir bóluefni Pfizer og BioNTech, yrði flýtt til 21. desember. Upphaflega stóð til að fundur stofnunarinnar yrði haldinn 29. desember.

Búist er við að framkvæmdastjórn ESB muni svo veita endanlegt samþykki þann 23. desember.


Tengdar fréttir

Pfizer-skorturinn teygir á áætlunum um hjarðónæmi

Breytingar á afhendingu bóluefnis Pfizer gætu orðið til þess að bjartsýnustu spár stjórnvalda um hjarðónæmi munu ekki rætast. Heilbrigðisráðherra segir ljóst að afhending á skömmtum á næsta ári sé breytingum háð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×