Sex milljónir skammta eru sagðir tilbúnir til dreifingar, en þetta er annað bóluefnið á viku sem hlýtur náð fyrir augum stofnunarinnar. Um það bil vika er síðan bóluefni Pfizer fékk neyðarleyfi og hófst dreifing á því síðustu helgi.
Um er að ræða stærsta bólusetningarátak í sögu Bandaríkjanna, en landið hefur farið hvað verst út úr kórónuveirufaraldrinum. Hvergi hafa fleiri látið lífið og smitum fer ört fjölgandi.
Stephen Hahn hjá Lyfjaeftirliti Bandaríkjanna sagði neyðarleyfi Moderna marka annað mikilvægt skref í baráttunni við heimsfaraldurinn. Nú þegar hefði hann valdið miklum skaða sem sýndi sig best í fjölda andláta og sjúkrahúsinnlagna.
Niðurstöður prófana á bóluefni Moderna benda til 94 prósenta virkni og fundust engar vísbendingar um ónæmisviðbrögð. Aðeins fleiri fengu meiri aukaverkanir eins og útbrot og kláða, en álit ráðsins var þó einróma og allir tuttugu meðlimir þess sammála.