Afbrigðið greinist með þeim skimunaraðferðum sem hafa verið notaðar hingað til og engar vísbendingar eru um að þau bóluefni sem hafa verið í þróun virki ekki á það.
Forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, tilkynnti í dag um hertar aðgerðir vegna aukinnar útbreiðslu SARS-CoV-2 í landinu. Frá miðnætti munu ströngustu takmarkanir taka gildi á sömu svæðum og nýja afbrigðið hefur dreift úr sér; í Lundúnum, suðausturhluta og austurhluta landsins.
Fólk hefur verið varað við því að ferðast út fyrir eða inn á svæði þar sem umræddar takmarkanir eru í gildi (tier 4) og beðið um að halda sig heima. Tveir mega koma saman í opinberum rýmum og öllum fyrirtækjum sem ekki veita nauðsynlega þjónustu hefur verið gert að loka dyrum sínum.
Stjórnvöld hafa einnig ákveðið að falla frá rýmkun sóttvarnaregla sem átti að gilda fimm daga yfir jól. Engar undanþágur verða gerðar á reglunum á ofangreindum svæðum og aðeins á jóladag á öðrum svæðum landsins.
Reglur hafa einnig verið hertar í Skotlandi og Wales.