Skoðun

Íslenskt fullveldi og Mannréttindadómstóll Evrópu

Ólafur Ísleifsson skrifar

Í dómi yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu 1. desember sl. er meðal annars vikið að dómum Hæstaréttar Íslands og málsmeðferð Alþingis við afgreiðslu málsins.

Dómurinn sýnist einkum snúast um hvort rökstuðningur Hæstaréttar fyrir því að dómarar Landsréttar séu skipaðir sem lögmætir handhafar dómsvalds í lagalegum og stjórnskipulegum skilningi hafi verið fullnægjandi.

Athygli vekur að Í dómi yfirdeildar Mannréttindadómstólsins er fjallað um hvernig við hæfi sé að Alþingi Íslendinga greiði atkvæði um tiltekið mál.

Mér er ekki ljóst hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu getur fjallað með þessum hætti um störf Alþingis. Hver og einn alþingismaður gat kallað eftir annarri framkvæmd. Þetta þýðir að atkvæðagreiðslan fór fram samkvæmt ákvörðun Alþingis, ákvörðun lýðræðislega kjörinna fulltrúa á fullvalda löggjafarsamkomu þjóðarinnar.

Mér er tjáð af kunnugum að leitun muni að dæmi um að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi talað með þvílíkum hætti til löggjafarþings í Evrópu. Má ég leyfa mér minna á að Ísland er friðsælt ríki og farsælt. Ísland er lýðræðisríki og réttarríki, Ísland er menningarríki og hér býr menntuð og hæfileikarík þjóð.

Ísland er fullvalda ríki með djúpar rætur í alþjóðlegu samstarfi. Mér er ekki ljóst hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu getur talað til æðstu stofnunar fullvalda ríkis með þeim hætti sem gert er í umræddum dómi.

Eins og sagt var af forsetastóli fyrir skemmstu: Enginn segir Alþingi fyrir verkum. Enginn.

Ég tel að allir alþingismenn ættu að sameinast um að mótmæla því hvernig talað er til Alþingis í dómi Mannréttindadómstólsins og það á fullveldisdegi Íslendinga. Ég mótmæli því fyrir mitt leyti.

Höfundur er þingmaður Miðflokksins. Greinin er samhljóða ræðu sem höfundur flutti á Alþingi 15. desember síðastliðinn. 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×