Erlent

Heimila notkun á bóluefni Pfizer í Evrópu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bóluefni Pfizer fær markaðsleyfi í Evrópu.
Bóluefni Pfizer fær markaðsleyfi í Evrópu. Vísir/getty

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu ákvað á fundi sínum í dag að heimila notkun á bóluefni lyfjafyrirtækjanna Pfizer og BioNTech gegn kórónuveirunni. Nefndin mælir með því að bóluefnið fái skilyrt markaðsleyfi í Evrópu.

Búist er við að leyfi fyrir bóluefninu, sem ber formlega heitið „Comirnaty“, verði gefið út í Evrópu strax í kvöld. Íslenskt markaðsleyfi verður í kjölfarið gefið út. Búist er við að leyfið á Íslandi fáist eigi síðar en á Þorláksmessu, 23. desember, að því er fram kemur á vef Lyfjastofnunar.

Þar með mega bólusetningar með efninu hefjast hér á landi en fram kom á upplýsingafundi almannavarna í dag að fyrstu skammtar af efninu séu væntanlegar til landsins 28. desember næstkomandi.

Bóluefninu er sprautað í handlegg tvisvar með minnst 21 dags millibili. Ísland fær tíu þúsund skammta nú í desember, sem duga fyrir um fimm þúsund manns. Heilbrigðisstarfsfólk í fremstu framlínu og íbúar á öldrunarstofnunum fá fyrstu bólusetningu. Alls hefur Ísland tryggt sér skammta af bóluefninu fyrir 85 þúsund manns, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu.

Bóluefni Pfizer og BioNTech er það fyrsta sem fær skilyrt markaðsleyfi innan ríkja Evrópusambandsins. Þegar er byrjað að bólusetja með efninu í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada.

Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir á Twitter í dag að samþykki Lyfjastofnunar Evrópu marki tímamót í dreifingu „öruggra og virkra“ bóluefna til Evrópubúa. Hún reiknar með að markaðsleyfi fáist formlega í kvöld.

 Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Þjóð­verjar ef­laust ekki allir kátir með „jóla­gjöfina“

Íslensk stjórnvöld telja sig hafa tryggt bóluefni fyrir alla þjóðina og sjá fyrir sér að hægt verði að bólusetja meginhluta þjóðarinnar á næstu mánuðum. Þá telja stjórnvöld að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið í samstarfi við hið fjölmenna Evrópusamband. Einnig hefði verið nær ómögulegt að sjá það fyrir í vor að Pfizer ætti eftir að taka forystuna í bóluefnakapphlaupinu.

Fullvissaði Katrínu um aðgengi Íslands að bóluefni í „góðu símtali“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti símafund með Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um bóluefni gegn kórónuveirunni í morgun. Von der Leyen lýsti fundinum sem farsælum á Twitter í morgun og kvaðst hafa fullvissað forsætisráðherra að Ísland fengi bóluefni fyrir 27. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×